Þrátt fyrir að gestgjafar afbóki sjaldan, og stundum af óviðráðanlegum ástæðum, geta þessar afbókanir raskað ferðaáætlunum gesta og grafið undan trausti á samfélagi okkar.
Í þessum reglum er ábyrgð gestgjafa á að standa við staðfestar bókanir á þjónustu og upplifunum á Airbnb lýst. Airbnb kann að leggja á gjöld og beita öðrum viðurlögum ef gestgjafi fellir niður staðfesta bókun þjónustu eða upplifunar eða telst ábyrgur fyrir afbókun samkvæmt þessum reglum. Gjöldum og öðrum viðurlögum sem koma fram í þessum reglum er ætlað að endurspegla kostnað og önnur áhrif sem slíkar afbókanir hafa á gesti, samfélag gestgjafa og Airbnb í heild sinni.
Við föllum frá gjöldum og öðrum viðurlögum í sumum tilvikum ef gestgjafinn afbókar vegna óviðráðanlegra aðstæðna eða af annarri gildri ástæðu.
Ef gestgjafi afbókar staðfesta bókun, eða telst ábyrgur fyrir afbókun samkvæmt reglunum, gætum við innheimt afbókunargjald sem nemur 20% af bókunarvirði viðkomandi þjónustu eða upplifunar. Við látum gestgjafann vita hvort gjald verði innheimt áður en hann fellir niður bókun.
Við útreikning afbókunargjalda telst bókunarvirði vera grunnverð upplifunarinnar eða þjónustunnar, að undanskildum sköttum eða öðrum gjöldum. Séu margir gestir í bókun sem gestgjafi fellir niður, til dæmis nokkur pláss í gönguferð, miðast afbókunargjaldið við heildarverðmæti niðurfelldra bókana gesta fyrir viðkomandi daga og tíma.
Yfirleitt eru afbókunargjöld dregin af næstu útborgun eða útborgunum gestgjafans, líkt og kemur fram í greiðsluskilmálum. Til viðbótar við þau gjöld og afleiðingar sem þessi regla kveður á um fær gestgjafinn ekki heldur útborgað fyrir niðurfelldu bókunina. Hafi gestgjafinn þegar fengið útborgað verður upphæðin dregin af næstu útborgun eða útborgunum til hans.
Aðrar afleiðingar geta átt við auk afbókunargjaldsins. Sem dæmi gæti verið lokað fyrir að gestgjafi fái aðrar bókanir þann tíma sem um ræðir í dagatali sínu fyrir þjónustu- eða upplifunarskráninguna. Afbókanir af hálfu gestgjafa á staðfestum bókunum án gildrar ástæðu, reglulegar afbókanir eða að gestgjafinn mæti ekki á staðinn gætu haft í för með sér frekari afleiðingar, svo sem fjarlægingu þjónustu- eða upplifunarskráningar viðkomandi af verkvangi Airbnb, líkt og kemur fram í þjónustuskilmálum okkar, grunnreglum gestgjafa og reglum um öryggi við umsjón þjónustu og upplifana.
Við föllum frá gjöldum og neikvæðum afleiðingum sem koma fram í þessum reglum þegar gestgjafi afbókar af gildum ástæðum sem viðkomandi hefur ekki stjórn á og koma í veg fyrir að hann geti boðið þjónustu sína eða upplifun. Ef fallið er frá gjaldi eða neikvæðum afleiðingum gætum við eftir sem áður lokað fyrir viðkomandi dagsetningar og tíma í dagatali gestgjafans til að koma í veg fyrir aðrar bókanir. Dæmi um gildar ástæður:
Gestgjafinn þarf að framvísa skráfestingu eða öðrum sönnunargögnum til Airbnb til að staðfesta að gild ástæða liggi að baki afbókuninni. Við metum hvort fallið verði frá gjöldum og öðrum afleiðingum eftir að hafa farið yfir fyrirliggjandi gögn. Gestgjafinn fær almennt ekki útborgað fyrir niðurfelldu bókunina, jafnvel þótt við fellum niður gjöld eða aðrar afleiðingar. Gestgjafi gæti hins vegar haldið útborgun ef afbókunin stafar af röskunum af völdum gests eða vandamáli tengdu gistingu á Airbnb sem kemur í veg fyrir að hægt sé að halda áfram með þjónustu eða upplifun.
Ef vandamál kemur upp hjá API-hugbúnaðarhúsi og gestgjafinn þarf að afbóka af þeim sökum verður gestgjafinn að leggja fram gögn sem sýna fram á bilun API-tengingunnar eða aðrar gildar ástæður þegar óskað er eftir niðurfellingu gjalda og viðurlaga.
Upplifunar- eða þjónustugestgjafi gæti borið ábyrgð á afbókun sem verður vegna þess að framkvæmd upplifunar eða þjónustu er verulega frábrugðin því sem lýst var við bókun. Í þessum tilvikum gæti gestgjafinn þurft að greiða gjöld og sæta öðrum neikvæðum afleiðingum sem kveðið er á um í þessum reglum, óháð því hver á frumkvæði að afbókuninni. Dæmi: Að hefja ekki upplifun innan 15 mínútna frá uppgefnum upphafstíma, að skipa annan gestgjafa eða samgestgjafa en kom fram við bókun þjónustunnar eða upplifunarinnar eða að veita gestum ekki mikilvægar upplýsingar með nægum fyrirvara.
Þjónustu- og upplifunargestgjafar mega ekki hvetja gesti til að afbóka til að losna undan gjöldum og öðrum afleiðingum. Ef gestur afbókar að beiðni þjónustu- eða upplifunargestgjafa, þar á meðal ef gestgjafinn lofaði að endurgreiða gestinum að fullu eða að hluta til, gætum við komist að þeirri niðurstöðu að gestgjafinn beri ábyrgð á afbókuninni samkvæmt þessum reglum og farið fram á að viðkomandi endurgreiði gestinum umrædda upphæð með því að draga hana af næstu útborgun eða útborgunum gestgjafans.
Geti gestgjafi einhverra hluta vegna ekki staðið við bókun verður hann að afbóka með nægum fyrirvara til að gestir hafi tíma til að gera ráðstafanir. Að veita rangar yfirlýsingar eða gögn í tengslum við þessa reglu er brot á þjónustuskilmálum okkar og getur haft frekari afleiðingar, þar á meðal eyðingu aðgangs. Þessar reglur gilda um afbókanir sem gerðar eru frá og með gildistökudegi. Lagaleg réttindi gesta og gestgjafa til lögsóknar verða ekki fyrir áhrifum með neinum hætti. Allar breytingar á þessum reglum verða gerðar í samræmi við þjónustuskilmála okkar. Þessar reglur gilda um skráningar þjónustu og upplifana en ekki heimilisskráningar.